Spænski kylfingurinn Sergio Garcia á yfir höfði sér væna fjársekt fyrir að hafa hrækt ofan í holuna á 13. braut á heimsmótinu sem fram fer í Miami um helgina. Garcia fékk skolla á brautinni eftir að hafa misst auðvelt pútt og brást við með fyrrgreindum hætti. Þess má geta að hrákan fór beint ofan í holuna.
“Ég missti auðvelt pútt og var ekki ánægður með sjálfan mig. En hrákan fór beint ofan í holuna og gat því aldrei haft áhrif á aðra keppendur. Ef ég hefði ekki hitt ofan í hefði ég þurrkað hana í burtu,” sagði Garcia við fréttamenn þegar hann var spurður út í atvikið.
Garcia er í 10. sæti mótsins þegar einn hringur er eftir, hefur leikið á alls fjórum höggum undir pari. Tiger Woods hefur fjögurra högga forystu á mótinu, hefur leikið á 11 höggum undir pari.
Forráðamenn PGA-mótaraðinnar segja að engin ákvörðun hafi verið tekin um refsingu Garcia en talið er líklegt að hann muni fá sekt.