Lífið

Birgitta lét drauminn rætast

Birgitta Birgisdóttir og Örvar Smárason létu pússa sig saman í Súðavík um helgina.
Birgitta Birgisdóttir og Örvar Smárason létu pússa sig saman í Súðavík um helgina.

Fullt var út úr dyrum í Súðavíkurkirkju á laugardaginn þegar leikkonan Birgitta Birgisdóttir og Örvar Smárason, liðsmaður hljómsveitarinnar Múm, gengu í heilagt hjónaband. Yfir 120 manns voru samankomnir í hinni litlu Súðavíkurkirkju og fylgdust með Séra Valdimari Hreiðarssyni gefa skötuhjúin saman.

 

„Þetta var yndislegur dagur sem stóðst allar mínar væntingar og miklu meira en það," sagði alsæl Birgitta þegar Fréttablaðið náði tali af henni í gær þar sem hún sleikti sólina í Búlgaríu, þangað sem hjónin nýgiftu héldu í upphafi vikunnar.

Ættir Birgittu og Örvar eiga báðar uppruna sinn að rekja til Vestfjarða og ólst móðir leikkonunnar ungu í Súðavík. „Ég ákvað það sem lítil stelpa að gifta mig í þessari kirkju og nú hefur draumurinn ræst," segir Birgitta. Eftir athöfnina var haldið í samkomuhúsið á Súðavík þar sem heljarinnar veislu var slegið upp. Nokkrir af nánustu vinum brúðhjónana settu saman hljómsveitina Wedding Present í tilefni veislunnar og sungu nokkur af uppáhaldslögum þeirra í gegnum tíðina. „Þetta gekk allt saman svakalega vel og við erum alveg í skýjunum með lífið og tilveruna," sagði Birgitta að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.