Innlent

Þrír mótmælendur handteknir við álverið í Straumsvík

Mótmælendur frá Saving Iceland strengdu borða á ráðhús Reykjavíkur í gær.
Mótmælendur frá Saving Iceland strengdu borða á ráðhús Reykjavíkur í gær. MYND/Hörður

Um 20 mótmælendur á vegum samtakanna Saving Iceland hafa stöðvað alla umferð að álverinu í Straumsvík. Þá hafa nokkrir mótmælendur farið inn á vinnusvæðið. Lögreglan hefur nú þegar handtekið þrjá mótmælendur.

Að sögn Snorra Páls Jónssonar, talsmanns Saving Iceland, hafa um 20 einstaklingar hlekkjað sig við hlið að vinnusvæði álversins í Straumsvík og þannig lokað allri umferð að svæðinu. Þá hefur einnig hópur mótmælenda farið inn á vinnusvæðið sjálft með það í huga að reyna klifra upp í vinnukrana.

Að minnsta kosti þrír lögreglubílar eru mættir á svæðið. Fyrir stuttu voru þrír mótmælendur handteknir en þeir voru komnir inn á vinnusvæðið.

Í yfirlýsingu frá samtökunum kemur fram að með þessu vilji þau mótmæla fyrirhuguðu álveri Rio Tinto-Alcan á Keilisnesi eða Þorlákshöfn. Þá er einnig stækkun álversins í Hafnarfirði mótmælt og nýju álveri fyrirtækisins í Suður-Afríku sem keyrt verður áfram af kolum og kjarnorku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×