Tónlist

Feiminn við Björk

Hot chip sveitin hitar upp fyrir Björk á tónleikum hennar í Laugardalshöll á annan dag páska.
Hot chip sveitin hitar upp fyrir Björk á tónleikum hennar í Laugardalshöll á annan dag páska.

Stuðsveitin Hot Chip hitar upp fyrir Björk á tónleikum á mánudaginn. Steinþór Helgi Arnsteinsson sló á þráðinn til sveitarinnar.

Joe Goddard, einn söngvari Hot Chip, lagahöfundur og hljómborðs­leikari sveitarinnar, var að vonum spenntur fyrir heimsókninni.

„Við höfum aldrei hitt Björk en þegar það gerist verð ég væntanlega mjög feiminn og stressaður. Hleyp líklegast bara í burtu,“ segir Joe mjög blíðlega en bætir við að líklegast muni hann spyrja Björk út í hvernig hafi verið að vinna með Timbaland og Konono No. 1 sem hann hrífst mjög af.

Önnur plata Hot Chip, The Warning, kom út í fyrra og fékk frábærar viðtökur, bæði hjá gagnrýnendum og almenningi.

Sveitin er á leið hingað til lands í þriðja skiptið til tónleikahalds en hljómsveitin er þekkt fyrir frábæra tónleika en þar breytir hún iðulega lögum sínum mikið. „Það er vegna þess að ég og Alexis gerum plöturnar saman í tölvunni minni heima [en hann var einmitt að vinna með Alexis að þriðju plötu sveitarinnar, sem kemur út á þessu ári, þegar Fréttablaðið náði tali af honum]. En þegar við spilum lögin á tónleikum erum við saman fimm og hinum líkar yfirleitt ekki hvernig við Alexis gerum lögin og vilja spila þau á annan hátt,“ útskýrir Joe og uppsker mikinn hlátur, bæði hjá blaðamanni og sjálfum sér. Hann bætir samt við að ákveðnir þættir haldi sér alltaf í öllum lögunum.

Piltarnir í sveitinni stoppa stutt við á Íslandi sem Joe þykir miður þar sem honum, ásamt hinum hljómsveitarmeðlimum, líki einstaklega vel við Reykjavík. „Við einbeitum okkur þá frekar að tónleikunum. Við höfum samt átt nokkur frábær kvöld á Sirkus og Kaffibarnum líka, þannig að við kannski endum þar aftur eftir tónleikana.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×