Körfubolti

Benedikt Guðmunds: Ég er gjörsamlega búinn

Mynd/Daniel

Benedikt Guðmundsson þjálfari KR var að vonum uppgefinn eftir rafmagnaðan spennuleik KR og Snæfells í kvöld þar sem vesturbæingar tryggðu sér sæti í úrslitum eftir framlengdan oddaleik. Benedikt sagði að hjarta leikmanna og karakter hafi tryggt liðinu sigur öðru fremur.

"Við vorum ekki að hitta úr skotunum okkar, ekki úr vítunum, það var ekki nógu góð færsla á vörninni - við unnum þennan leik á hjarta og karakter einu sér. Það var vakalegt að missa Brynjar í þessi meiðsli og ég veit ekki hvernig í ósköpunum hann fór að því að setja þetta skot niður þarna í lokin, en þvílíkur töffari sem þessi drengur er.

Þetta er búin að vera þvílík sería. Liðin voru hnífjöfn í deildinni og spila bæði góðan varnarleik svo það var ekki mikið skorað í þessu einvígi. Þetta var frábært einvígi, Snæfell er með vel mannað lið, frábæran þjálfara og góða stuðningsmenn.

Ég er gjörsamlega búinn á því núna og ég held að ég verði að fá einhvern til að keyra mig heim eftir þennan leik ef ég á að segja alveg eins og er. Menn hafa verið að grínast með það að KR vinni alltaf bara á tíu ára fresti eftir titil ´90 og 2000 - en við skulum sjá hvort við getum ekki náð í titil 2007," sagði Benedikt í samtali við Guðjón Guðmundsson á Sýn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×