Körfubolti

Williams og Fisher tæpir hjá Utah í nótt

Williams og Fisher eru báðir tæpir fyrir leikinn í kvöld
Williams og Fisher eru báðir tæpir fyrir leikinn í kvöld NordicPhotos/GettyImages

San Antonio Spurs getur tryggt sér sæti í úrslitum NBA deildarinnar í kvöld með heimasigri á Utah Jazz í fimmta leik liðanna í úrslitum Vesturdeildarinnar. Leikurinn verður sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn klukkan eitt eftir miðnætti. Tveir af byrjunarliðsmönnum Utah eru tæpir fyrir leikinn.

Leikstjórnandinn Deron Williams er þannig tognaður á fæti og Derek Fisher, sem byrjar venjulega í stöðu skotbakvarðar, er í New York þar sem dóttir hans er í aðgerð vegna alvarlegs sjúkdóms. Fisher á flug til Texas og ætti að ná leiknum þó lítið megi útaf bera svo hann missi af byrjun leiksins í nótt.

"Ég get ekki treyst á það að einn eða neinn af leikmönnunum spili fyrr en ég sé þá í búningnum fyrir leik," sagði Jerry Sloan þjálfari Utah. "Ef þeir komast ekki í leikinn, verð ég bara að nota aðra menn í stað þeirra."

Ljóst er að Utah á eftir að sakna Williams mikið ef hann getur ekki spilað, því leikstjórnandinn ungi hefur farið á kostum í einvíginu við San Antonio. Hann er með 29,5 stig og 9,3 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum fjórum. Williams mætti á æfingu í dag klæddur í stórt hlífðarstígvél og neitaði að svara nokkru um það hvort hann yrði með í kvöld. "Við sjáum til í kvöld," sagði hann þegar hann var spurður hvort hann gæti spilað.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×