Fótbolti

Giggs: Vonbrigði ef við vinnum ekki Meistaradeildina

Giggs spilar sinn 705. leik fyrir Manchester United í Róm í kvöld
Giggs spilar sinn 705. leik fyrir Manchester United í Róm í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Vængmaðurinn Ryan Giggs hjá Manchester United segir að allt annað en að vinna Meistaradeildina í ár yrðu vonbrigði fyrir félagið. Giggs er einn sigursælasti knattspyrnumaður í sögu Manchester United og vill ólmur bæta enn einum titlinum í safnið í vor.

"Ég vil endilega vinna annan Evróputitil með félaginu," sagði Giggs, sem var í liðinu sem vann þrennuna frægu árið 1999. "Við erum búnir að koma okkur í aðstöðu til að vinna þrjá titla í ár og vonandi næ ég í annan Evrópumeistaratitil. Þó vissulega séu ungir leikmenn í liðinu núna, er þar góð blanda yngri og reyndari leikmanna sem að mínu mati hafa alla burði til að sigra í keppnininni. Það er þó ekki nóg að vera efnilegur og maður sannar sig ekki nema með því að vinna titla," sagði Giggs.

United spilaði síðast á Ítalíu í Meistaradeildinni árið 2005 en þá tapaði liðið fyrir Milan. Giggs telur liðið í dag sterkara og reynslunni ríkari og segir að Alex Ferugson spili stórt hlutverk í að halda öllum á tánum.

"Við erum með betra lið núna en við vorum með 2005 og við höfum sýnt það í vetur að við getum náð hagstæðum úrslitum bæði með því að spila vel og með því að berjast og vinna nauma sigra. Hungur knattspyrnustjórans hefur mikið með það að gera hvernig andinn er í mannsskapnum og hungur hans hefur nuddast á alla í liðinu - yngri sem eldri."

Leikur Roma og Manchester United í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar verður sýndur beint á Sýn í kvöld klukkan 18:30. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×