Fótbolti

Ferguson: Við vorum tíu gegn tólf

NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson sagðist í kvöld ánægður með leik sinna manna í Manchester United í Róm þrátt fyrir 2-1 tap. Hann sagði lið sitt á köflum hafa verið tveimur leikmönnum færri og vildi þar meina að dómarinn hafi verið í liði með Rómverjum.

"Ef tekið er mið af því að við spiluðum með tíu menn á móti ellefu - og stundum tólf - get ég ekki verið ánægður með úrslitin. Ég hafði ekkert að segja við rauða spjaldinu á Scholes, en dómarinn hafði lagt ákveðna línu fyrir leikinn með mótmæli og athugasemdir frá leikmönnum sem hann fór alls ekki eftir," sagði Ferguson og vildi lítið segja við brottrekstri Scholes eða frammistöðu markvarðarins Edwin van der Sar í öðru marki Roma.

"Paul finnst gaman að tækla, en hann kemst ekki upp með svona lagað í Evrópukeppni. Hvað annað markið varðar, held ég að Edwin hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að verja. Hann hefði ef til vill geta slegið boltann yfir - en þetta var erfitt skot."

Ferguson var ánægður með mark Wayne Rooney og er bjartsýnn á framhaldið. "Markið hans Rooney var eins gott mark og þið munið sjá í kvöld. Hann kláraði færið einstaklega vel. Það var líka gaman að fá Darren Fletcher til baka úr meiðslum og ég held að við eigum mjög góða möguleika að fara áfram eftir leikinn á Old Trafford," sagði Skotinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×