Viðskipti innlent

Askar Capital stofnar framtakssjóð

Dr. Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri Askar Capital.
Dr. Tryggvi Þór Herbertsson, forstjóri Askar Capital.

Fjárfestingabankinn Askar Capital hefur sett á fót fjárfestingarsjóð á sviði framtaksfjármögnunar (private equity) í samvinnu við VCM Capital Management, eitt umsvifamseta fyrirtæki í heimi á sviði framtaksfjármögnunar, og bandaríska fjármálafyrirtækið Resource America.

Sjóðurinn nefnist Enhanced Return Private Equity Fund of Funds (ERPEFF) og nýtur þeirrar sérstöðu að byggja verkefnaval sitt á upplýsingum og ráðgjöf frá CEPRES, einni þekktustu greiningarstofu heims á sviði framtaksfjármögnunar, að því er segir í tilkynningu.

Mikil þróunar- og undirbúningsvinna liggur að baki stofnunar sjóðsins af hálfu fulltrúa félaganna þriggja og verður hann kynntur hérlendum fagfjárfestum á næstu vikum, segir þar.

Haft er eftir dr. Tryggva Þór Herbertssyni, forstjóra Askar Capital, að sjóðurinn sé spennandi valkostur fyrir lífeyrissjóði og aðra fagfjárfesta. „Með samstarfi við einn fremsta greiningaraðila heims á þessu sviði, vandaðri undirbúningsvinnu og þróun í samstarfi við öfluga aðila báðum megin Atlantshafsins höfum við náð að lágmarka óvissu sem yfirleitt tengist verkefnum á sviði framtaksfjármögnunar og auka líkur á góðum árangri og ávöxtun til fjárfesta," segir Tryggvi.

ERPEFF sjóðurinn er eingöngu ætlaður fagfjárfestum og nema lágmarkskaup fimm milljónum dala. Sjóðurinn er skráður í Írlandi og starfar eftir reglum sem þar gilda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×