Innlent

Sextán milljóna króna skuld ógreidd

Byrgið fékk aukafjárveitingu árið 2002 til að greiða upp í tæplega sextán milljóna króna skuld við Hitaveitu Suðurnesja. Hitaveitan sá ekki krónu af þeim peningum.

Hjálmar Árnason þingmaður Framsóknar hefur lýst því svo í Víkurfréttum að hann hafi ólmast innan þingsins til að afla fjár fyrir Byrgið. Í samtali við fréttastofu í dag sagðist hann hryggur yfir því hvernig göfugt hugsjónastarf virðist hafa þróast út í mannlegan harmleik. Og vei þeim pólitíkusum, segir Hjálmar, sem berja sér á brjóst í dag um málefni Byrgisins, þeir sömu og ítrekað skömmuðu stjórnarliða fyrir að setja ekki meiri pening í starfsemina.

En hamagangurinn skilaði sér og þegar skuld Byrgisins við Hitaveitu Suðurnesja var komin upp í sextán milljónir var þeim hótað lokun. Í kjölfarið náðist í gegn aukafjárveiting fyrir Byrgið.

Hitaveitan fékk munnlegt samkomulag um að aukafjárveitingin rynni til að greiða skuldina.

Og ekki nóg með það. Að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, þá fékk hitaveitan bréf frá forsvarsmönnum nokkurra stórfyrirtækja í Reykjavík þar sem fram kom að þeir myndu ábyrgjast greiðslu á þessari skuld. En eina greiðslan frá Byrginu til Hitaveitunnar barst í apríl 2003 og var um 400.000 krónur. Um fimmtán og hálf milljón, auk dráttarvaxta, stóðu eftir og ekki króna fékkst upp í þá skuld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×