Viðskipti innlent

Þrjú lyf frá Actavis á evrópskan markað

Actavis hefur sett á markað þrjú ný samheitalyf í Evrópu. Lyfin eru þróuð á Íslandi og eru meðal fjölmargra lyfja sem Actavis mun markaðssetja í Evrópu á næstu mánuðum.

Í tilkynningu frá Actavis kemur frað að í fyrra voru um 300 markaðssetningar á nýjum lyfjum á hina ýmsu markaði samstæðunnar og sé búist við að aukning verði á þessu ári.

Lyfin eru hormónalyfið Fínasteríð, þunglyndislyfið Mirtazapín og flogaveikilyfið Topiramate. Fínasteríð, sem er samheitalyf frumlyfsins Proscar frá lyfjafyrirtækinu Merck, er notað við góðkynja stækkun blöðruhálskirtils og hefur verið selt á Íslandi í nokkur ár undir heitinu Fínól. Til að byrja með er lyfið selt á Spáni, í Portúgal og Slóveníu í töfluformi og nemur sala frumlyfsins um 60 milljörðum króna á ári í heiminum. Mírtazapín munnlausnartöflur eru samheitalyf frumlyfsins Remeron frá lyfjafyrirtækinu Organon og nemur sala frumlyfsins um 20 milljörðum króna á ári í heiminum. Topiramate verður selt í Portúgal en þar var ekkert einkaleyfi fyrir lyfinu, en einkaleyfið rennur út 2009 á helstu mörkuðum í Evrópu. Heiti frumlyfsins er Topimax frá frumlyfjafyrirtækinu Janssen-Cilaq, að því er segir í tilkynningunni.

Lyfin munu verða markaðssett bæði undir eigin vörumerkjum Actavis og seld til þriðja aðila í gegnum dótturfélag samstæðunnar, Medis.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×