Viðskipti innlent

Óhagstæður vöruskiptahalli veikir krónuna

Nafngengi krónunnar hefur lækkað um 7 prósent frá miðjum október á síðasta ári. Fram að þeim tíma hafði krónan styrkst töluvert og leit út fyrir að fyrri veiking myndi ganga til baka að mestu. Greiningardeild Landsbankans segir það skipta máli að snúa óhagstæðum vöruskiptahalla við eigi að koma í veg fyrir frekari veikingu krónunnar.

Í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans í dag segir að sveiflurnar á gengi krónunnar endurspeglist einnig í raungengi hennar miðað við tölur Seðlabankans. Í fyrra fór vísitalan lægst í 95,5 stig í júní og hafði þá lækkað um 18,5 prósent frá því í nóvember árið 2005. Meðaltal raungengisins fyrir árin 1990 til 2006 er 94,7 stig þannig að lækkunin á fyrrihluta ársins náði ekki að koma krónunni niður í meðaltalið þó ekki hafi munað miklu, að sögn greiningardeildarinnar. Í október var raungengið komið í 106,1 stig og hefur síðan lækkað aftur um 11,1 prósent.

Deildin segir ennfremur að miðað við núverandi nafngengi krónunnar og spá um verðbólgu megi búast við enn frekari lækkun raungengisins á næstu mánuðum og gæti það verið í um 99,0 stigum í næsta mánuði.

Þá segir í Vegvísinum að breytingar á gengi krónunnar ráðist af því hversu afgerandi tölur um viðsnúning á vöruskiptajöfnuði verða á næstu mánuðum. „Láti sá viðsnúningur á sér standa má allt eins búst við enn frekari veikingu kónunnar," segir greiningardeild Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×