Innlent

Kaupmáttur ellilífeyris minnstur á Íslandi

Fjármálaráðherra studdist við rangar tölur þegar hann fullyrti á eldhúsdagsumræðum að kaupmáttur ellilífeyris væri hærri á Íslandi en annars staðar á Vesturlöndum. Réttara sé að styðjast við tölur Hagstofunnar sem sýni hið gagnstæða. Þetta segir í yfirlýsingu frá Landssambandi eldri borgara.

Línurit á heimasíðu ráðherra sé byggt á röngum tölum sem komi úr norrænni skýrslu NOSOSKO. Fleiri ráðherrar hafi vísað til þessara röngu talna.

Rétt sé að styðjast við tölur úr skýrslunni Útgjöld til félagsverndar 2001-2004 frá Hagstofu Íslands. Þar kemur fram að kaupmáttur ellilífeyrisgreiðslna er lægstur á Íslandi. Hæstur er hann í Danmörku.

Almennt eru ellilífeyrisgreiðslur á hinum Norðurlöndunum 14-58 prósent hærri en á Íslandi. Víða á meginlandi Evrópu séu lífeyrisgreiðslur jafnvel hærri en hjá löndum Skandinavíu.

Sambandið telur stöðuna á Íslandi óviðunandi, ekki síst með tilliti til mikillar hagsældar hérlendis.

Þá segir að frá upptöku staðgreiðslukerfis skatta hafi skattbyrði flestra ellilífeyrisþega hér á landi hækkað verulega og umfram skattbyrði meðalfjölskyldunnar. Það hafi ekki gerst í nágrannalöndunum að skattbyrði lífeyrisþega hækki umfram aðra hópa eins og hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×