Innlent

Hernaðarandstæðingar ósáttir við lágflug

Sighvatur Jónsson skrifar

Samtök hernaðarandstæðinga eru ekki ánægð með að herþotur á vegum Atlantshafsbandalagsins fái að fljúga lágflug yfir hálendinu í tvær klukkustundir í senn dagana fjórtánda og fimmtánda ágúst. Framkvæmdastjóri Íshesta segir að litlu hafi mátt muna að stórslys yrði fyrir nokkrum árum vegna slíks flugs. Formleg umsókn vegna lágflugs hefur borist samgönguráðuneytinu.

Í tengslum við heræfinguna Norður-víkingur, sem fer fram hér á landi um miðjan ágúst, hefur utanríkisráðuneytið óskað eftir því að lágflug verði heimilað yfir hálendinu fjórtánda og fimmtánda ágúst. Lágflug er ekki leyfilegt fyrr en í september, og því þarf að sækja um undanþágu.

Utanríkisráðuneytið sækir um þessa undanþágu til vara, ef ekki mun viðra til flugæfinga yfir sjó suðvestur af landinu. Í umsókninni er gert ráð fyrir lágflugi orrustuþotna yfir svokölluðu Lómasvæði - sem nær yfir Sprengisand, Hofsjökul og Vatnajökul, tvo tíma í senn hvorn dag.

Einar Bollason hjá Íshestum segir það sína reynslu að utanríkisráðuneytið láti vita af slíku lágflugi með góðum fyrirvara. Sá háttur hafi verið hafður á í kjölfar þess að stórslys hafi nærri orðið fyrir nokkrum árum, þegar hávaði frá herþotum í lágflugi fældi hesta ferðamannahóps á vegum fyrirtækisins.

Þrátt fyrir að lágflug sé varaáætlun og tímamörkin stutt, eru samtök hernaðarandstæðinga ekki sátt við fyrirætlanir utanríkisráðuneytisins. Einar Ólafsson, talsmaður samtakanna, segir að þótt einungis væri um fimmtán mínútna flug að ræða myndi gífurlegur hávaði frá þotunum raska kyrrð. Þess utan sé það grundvallaratriði hjá samtökunum að vera andvíg öllum heræfingum.

Aðstoðarmaður utanríkisráðherra vill koma því á framfæri að ekki verði farið fram á varaheimild til lágflugs yfir landinu í tengslum við heræfingar á landinu um miðjan ágúst, og að lágflug verði því ekki hluti æfinganna. Samkvæmt heimildum fréttastofu var búið að fara fram á slíka heimild, svo breyting hefur orðið þar á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×