Innlent

Lögregla hefur ekki enn fundið manninn

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki enn fundið karlmann sem hún leitar að í tengslum við rannsókn á árás í miðborg Reykjavíkur. Lögreglan hefur birt mynd af manninum úr öryggismyndavél í miðbænum.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu nú fyrir stundu er maðurinn ekki fundinn en rannsókn miðar þó áfram. Nokkrir hafa haft samband við lögregluna og gefið henni vísbendingar í tengslum við málið.

Vísir sagði frá því fyrr í dag að lögregla vilji ekki tilgreina hvers konar árás sé um að ræða en leiða má líkum að því að um sé að ræða nauðgun sem rúmlega tvítug kona kærði til lögreglunnar í gær. Fram kom í Fréttablaðinu í morgun að konan hefði verið á heimleið af skemmtistað aðfaranótt laugardagsins þegar maður réðst á hana í Grófinni í Reykjavík og nauðgaði henni.

Hún mun hafa hlotið nokkra áverka við árásina. Konan gaf greinargóða lýsingu á árásarmanninum og hefur lögregla skoðað eftirlitsmyndavélar á svæðinu við rannsókn málsins.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að hún vilji með myndbirtingunni athuga hvort einhver þekki manninn en hann er talinn tengjast málinu. Maðurinn er 165 til 170 sentímetrar á hæð, grannur, dökkhærður, stuttklipptur með þunnt yfirvaraskegg og pinna í tungunni. Hann er talinn af erlendu bergi brotinn.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um manninn eru vinsamlega beðnir um að hringja í lögregluna í síma 444-1000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×