Fótbolti

Hitzfeld skammar leikmenn sína

Ottmar Hitzfeld var þungur á brún þegar hann horfði á sína menn tapa fyrir Stuttgart í gær.
Ottmar Hitzfeld var þungur á brún þegar hann horfði á sína menn tapa fyrir Stuttgart í gær. MYND/Getty

Ottmar Hitzfeld og Oliver Kahn, þjálfari og fyrirliði Bayern Munchen, eru allt annað en sáttir með frammistöðu leikmanna liðsins í leiknum gegn Stuttgart í gær. Leikurinn tapaðist 2-0 og eru möguleikar Bayern á titlinum orðnir stjarnfræðilegir. Þá er alls ekki víst að Bayern nái að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Bayern er í fjórða sæti eftir tapið í gær en þrjú efstu sætin gefa sæti í Meistaradeildinni. Liðið hefði komist í þægilega stöðu með sigri á Stuttgart í gær en þrátt fyrir mikilvægi leiksins voru leikmenn Bayern úti á þekju lengst af og áttu ekki skilið að fá neitt úr leiknum. Eftir leikinn sagði þjálfarinn Hitzfeld að leikmenn þyrftu að taka sjálfa sig í rækilega naflaskoðun.

“Frammistaða okkar var einfaldlega skelfileg,” sagði Hitzfeld, en Bayern er nú 5 stigum á eftir Stuttgart, sem er í þriðja sætinu.  “Það var ömurlegt að sjá metnaðarleysi leikmanna. Það var engin barátta og engin vilji í hjörtum okkar. Þetta eru gríðarleg vonbrigði fyrir mig,” sagði þýski þjálfarinn.

Fyrirliðinn og markvörðurinn Oliver Kahn tók undir orð þjálfara síns. “Við erum ekki vanir því að vera að berjast um fjórða sæti. Við eigum að vera í baráttunni um efsta sætið. Okkur skortir einbeitingu og leikmenn óttast of mikið að valda vonbrigðum og eyðileggja fyrir sjálfum sér. Það þarf að fara langt aftur í tímann til að finna eins vonda frammistöðu og við buðum upp á í fyrri hálfleiknum hér í Stuttgart,” sagði Kahn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×