Fótbolti

Houllier: Ég fer hvergi

NordicPhotos/GettyImages

Knattspyrnustjórinn Gerard Houllier segist ekki ætla að segja starfi sínu hjá Lyon lausu þrátt fyrir að lið hans hafi verið illa leikið af Roma á heimavelli sínum í gær. Margir spáðu því að Lyon færi langt í Meistaradeildinni þetta árið, en liðið var arfaslakt gegn Rómverjunum í gær og steinlá 2-0 í fyrsta tapi sínu á heimavelli síðan 2002 í keppninni.

Fjölmiðlar í Frakklandi voru fljótir að stökkva til og ræða framtíð Houllier eftir tapið í gær og hefur hann verið orðaður við stöðu hjá franska landsliðinu - sem og stöðu landsliðsþjálfara Ástrala.

"Þetta er bara slúður og það mun ekkert hætta, en ég hef nóg að gera enn þó við séum fallnir úr Meistaradeildinni," sagði Houllier, sem áður stýrði liði Liverpool á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×