Tónlist

Bandaríkjamenn sýna Heru áhuga

Hera er nýkomin heim til Nýja Sjálands eftir tveggja vikna dvöl í Bandaríkjunum.
Hera er nýkomin heim til Nýja Sjálands eftir tveggja vikna dvöl í Bandaríkjunum. MYND/Heiða

Tónlistarkonan Hera Hjartardóttir er nýkomin heim til Nýja Sjálands eftir hafa verið í viðræðum við þrjú bandarísk plötufyrirtæki. Hera hélt þrenna tónleika á hátíðinni South By Soutwest í Texas á dögunum og hafði upp úr krafsinu mikinn áhuga útgefenda.

Strax eftir hátíðina flaug Hera til Los Angeles til að fylgja áhuganum eftir og dvaldi þar í tvo daga. „Ég fór á nokkra fundi en það er allt ennþá í skoðun. Það eru þrjú fyrirtæki sem ég talaði við í heildina en ég get eiginlega ekkert sagt neitt meira,“ segir Hera, sem skemmti sér vel í Bandaríkjunum.

„Þetta var ofboðslega skemmtileg ferð. Ég hélt ferna tónleika í Ameríku, eina í Stillwater í Oklahoma og þrenna í Texas,“ segir Hera. „Ég hélt tónleika á sviði rétt hjá Austin í Texas sem voru sendir út beint á netinu. Þeir höfðu samband þegar ég var á leiðinni til Texas, maður sem heitir Hank Sinatra. Hann er búinn að halda tónleika rétt fyrir utan bæinn í 25 ár og það var ofboðslega skemmtilegt hjá honum.“

Auk áhuga Bandaríkjamannanna fór Hera í viðtal hjá útvarpsstöðinni BBC World Series, sem sendir út um allan heim, þar á meðal til Afríku. „Það kom margt skemmtilegt út úr þessari ferð og það er alls konar fólk búið að hafa samband,“ segir Hera. Ætlar hún að dvelja í Nýja Sjálandi á næstunni og stefnir m.a. á að taka upp myndband þar í landi. Býst hún ekki við að koma aftur til Íslands fyrr en sumarið 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×