Erlent

Negrastrákum Agötu Christie úthýst í Ohio

Óli Tynes skrifar
Agata Christie við skriftir.
Agata Christie við skriftir.

Leikriti Agötu Christie Tíu litlir negrastrákar, hefur verið úthýst í menntaskóla í Ohio í Bandaríkjunum.

Það var gert eftir kvörtun frá réttindasamtökum litaðra manna í þvísa landi. Christie skrifaði bók með þessu nafni árið 1939.

Það var lauslega byggt á vísnabókinni um svertingjastrákana tíu sem hlutu svo dapurleg örlög. Í bók Agötu Christie höfðu raunar tíu hvítir menn og konur safnast saman í húsi.

Þau voru myrt eitt af öðru og sýnilegt að morðinginn var að endurskapa örlög svertingjastrákanna.

Upphafleg titill bókarinnar á ensku var Ten little niggers. Nigger er fyrir löngu orðið lítilsvirðandi skammaryrði um svertingja.

Undanfarna áratugi hefur leikritið því verið sett upp undir nafninu Tíu litlir Indíánar, eða undir nafninu Og þá var eftir einn.

Í skólanum í Ohio átti að setja leikritið upp undir nafninu Tíu litlir Indíánar. Fyrrnefndum réttindasamtökum fannst það ekki nóg.

Hinn upphaflegi titill frá 1939 hefði verið móðgandi og leikritið ætti því ekki erindi í Lakota East menntaskólann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×