Birgir Leifur Hafþórsson heldur áfram að gera það gott á Evrópumótaröðinni en í gær komst hann í gegnum niðurskurð á móti sem fram fer á Spáni. Birgir Leifur lék á fjórum höggum undir pari í gær og er samtals á þrem höggum undir pari. Það setur hann í 30. sæti mótsins ásamt nokkrum öðrum kylfingum.
Þessi spilamennska var talsverð framför frá fyrsta deginum þar sem Birgir Leifur lék á einu höggi yfir pari. Hann fékk fimm fugla á hringnum í gær og einn skolla sem verður að teljast vel af sér vikið.
Birgir Leifur náði sínum besta árangri á Evrópumótaröðinni í síðustu viku er hann varð í 11.-13. sæti á móti á Ítalíu.
Hann fékk tvær og hálfa milljón króna í verðlaunafé á því móti og er því búinn að vinna sér inn tæplega fjórar milljónir króna það sem af er.
Mótið á Spáni er áttunda mótið á Evrópumótaröðinni sem Birgir Leifur tekur þátt í síðan hann vann sér inn fullan þáttökurétt á röðinni.