Viðskipti innlent

Góður hagnaður hjá FL Group á árinu

Gengi bréfa í bandarísku flugsamsteypunni AMR Corporation hækkaði um 7,11 prósent í gær og endaði hlutabréfaverðið í 40,23 bandaríkjadölum á hlut. FL Group keypti tæpan 6 prósenta hlut í félaginu fyrir um 28 milljarða íslenskar krónur undir lok desember í fyrra. Gengi AMR hefur hækkað um 33 prósent það sem af er árs.

Greiningardeild Glitnis bendir á í Morgunkorni sínu í dag að því megi ætla að hagnaður FL Group hafi hækkað um 8,9 milljarða krónur á árinu ef miðað er við fast gengi krónu gagnvart bandaríkjadal og ef ekki er tekið tillit til kostnaðar við fjármögnun kaupanna.

Þá bendir deildin á að verðmæti Glitnis banka hafi sömuleiðis hækkað um 6,9 prósent það sem af sé árs. FL Group á 30 prósenta hlut í bankanum og megi áætla að hagnaður félagsins af hækkuninni nemi um 7 milljörðum króna á sama tíma.

Hagnaður FL Group af þessum tveimur stærstu eignarhlutum sínum nemur því samtals um 16 milljörðum króna á fyrstu 16 dögum ársins, að sögn greiningardeildar Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×