Fótbolti

Rooney verður fyrirliði United á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney í leik gegn Arsenal í síðasta mánuði.
Wayne Rooney í leik gegn Arsenal í síðasta mánuði. Nordic Photos / Getty Images

Wayne Rooney verður fyrirliði Manchester United sem mætir Rómverjum í Meistaradeild Evrópu á morgun.

Ljóst er að Sir Alex Ferguson, stjóri United, mun að mestu tefla fram leikmönnum sem fá sjaldan tækifæri enda skiptir leikurinn engu máli fyrir hvorugt lið. United er búið að tryggja sér sigur í riðlinum og Roma annað sætið.

Cristiano Ronaldo, Carlos Tevez, Ryan Giggs og Rio Ferdinand verða allir hvíldir á morgun og þeir Danny Simpson, Jonny Evans, Nani, Darren Fletcher og Louis Saha eru allir í leikmannahópnum sem og hinir ungu Febian Brandy og Sam Hewson.

Hjá Roma er Philippe Mexe aftur orðinn leikfær eftir meiðsli en Simone Perrotta er tæpur. Hvort Luciano Spalletti stillir upp sínu sterkasta liði á morgun er óljóst en fyrirliði liðsins, Francesco Totti, viðurkenndi að hann væri þegar byrjaður að hugsa um 16-liða úrslitin.

„Ef maður ætlar sér sigur í Meistaradeildinni verður maður að vinna stóru liðin. Við náðum öðru sætinu í okkar riðli sem þýðir að við mætum væntanlega stóru liði í næstu umferð, eins og Chelsea, Barcelona og Real Madrid. Ég vildi þó helst forðast Barcelona."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×