Viðskipti innlent

Hlutafjárútboði Marel lokið

Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marel Food Systems, og Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins.
Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marel Food Systems, og Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins. Mynd/Anton

Lokuðu útboði Marel Food Systems á nýjum hlutum lauk á föstudag en nýir hlutir svara til tæplega átta prósenta heildarhlutafjár Marel. Lífeyrissjóðir tryggðu sér tvo þriðju hluta af nýja hlutafénu og afgangurinn féll öðrum fjárfestum í skaut.

Þetta merkir að allir helstu lífeyrissjóðir landsins eru nú á meðal stærstu hluthafa félagsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu til Kauphallarinnar.

Verð hlutanna var 92 krónur á hlut en til samanburðar stendur það nú í 94,5 krónum. Þá er það fjórum prósentum undir lokagengi Marel á föstudag.

Í tilkynningunni segir ennfremur að í kynningu Marel á kaupum á Stork Food Systems í enda síðasta mánaðar hafi komið fram að Marel hyggist bjóða út nýtt hlutafé fyrir 147 milljónir evra, jafnvirði rúmra 13,2 milljarða íslenskra króna, til að fjármagna yfirtöku á hollensku iðnsamsteypunni Stork Food Systems. Með útboðinu sem lauk á föstudag aflaði Marel sem samsvarar um 30 milljónum evra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×