Innlent

Ráðist á Ísland, ekki Íran

Gætum farið að sjá þessar þyrlur á íslenskum næturhimni.
Gætum farið að sjá þessar þyrlur á íslenskum næturhimni. MYND/AFP
Bandarískur háskólaprófessor birti í dag grein á vefsíðu Princeton háskóla í Bandaríkjunum. Í henni leggur hann til að ráðist verði á Ísland í stað Íran og að slík árás geti hagnast öllum, jafnvel Íslendingum.

Prófessorinn, sem heitir Uwe E. Reinhardt, tiltekur nokkrar ástæður í grein sinni.

  • Ísland er frábært skotmark þar sem engin hætta er á að skjóta á önnur lönd.
  • Ísland er mikið nær en Íran. Sprengjuflugvélar gætu flogið til Íslands, varpað sprengjum, flugmennirnir haldið áfram til Englands og skroppið á pöbbinn á meðan hinir vingjarnlegur Bretar fylltu á sprengjurnar. Síðan myndu flugmennirnir fljúga til baka og vera komnir heim fyrir kvöldmat.
  • Það sást til skuggalegs manns panta sér gula köku af skuggalegri gengilbeinu. Eflaust ekkert athugavert en einfalt væri að líta á þetta sem alvarlegan atburð sem útheimti sprengjuárásir.



Og svona heldur prófessorinn áfram. Næst leggur hann til að Reykjavík verði byggð upp á ný eftir að sprengingunum er lokið og að bandarískum fyrirtækjum verði veittir samningarnir. Þannig sé hægt að auka á góðæri í landinu þar sem peningar myndu streyma inn í landið og atvinnumöguleikar margfaldast - það þyrfti jú að byggja allt upp á nýtt.

Einnig kemur Reinhardt inn á möguleikana sem felast í markaðssetningu á stríðinu sjálfu. Stríð við Ísland gæti jafnvel slegið út sjálfa Idol keppnina í áhorfi. Stríðið yrði síðan fjármagnað af Japönum og Kínverjum, rétt eins og þeir hafa fjármagnað stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan.

Lokaorð Reinhardts eru á þessa leið:

„Með því að ráðast á Íran eigum við á hættu að gera okkur að fíflum einu sinni enn, rétt eins og þegar við réðumst á Írak. Af hverju taka áhættuna? Árás á Ísland, fjármögnuð með sölu ríkisskuldabréfa myndi (1) nútímavæða Ísland, (2) skapa fjármagn í bandaríska hagkerfinu, (3) sýna fram á hermátt okkar um allan heim og (4) vera ódýrara. Það hagnast allir á þessu."

Grein Reinhardts er hægt að sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×