Viðskipti innlent

Uppsveiflu Atlantic Petroleum lokið í bili

Wilhelm Pettersen, forstjóri færeyska olíuleitarfélagsins Atlantic Petroleum. Gengi félagsins rauk upp í vikunni en hefur lækkað mest í dag.
Wilhelm Pettersen, forstjóri færeyska olíuleitarfélagsins Atlantic Petroleum. Gengi félagsins rauk upp í vikunni en hefur lækkað mest í dag.
Gengi hlutabréfa hefur lækkað nokkuð í verði í Kauphöllinni í dag en Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,49 prósent. Þetta er í takti við þróun á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. Gengi bréfa í færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum hefur lækkað mest í dag, eða um 2,7 prósent. Félagið hefur verið á viðstöðulausri uppleið í Kauphöllinni vikunni og hækkað um tæp 129 prósent frá áramótum.

Einungis gengi bréfa í Eimskipafélaginu og Atorku hafa hækkað í dag, þar af Eimskipafélagið mest, um 0,25 prósent. Önnur félög í Kauphöllinni hafa ýmist lækkað eða staðið í stað.

Lækkanatakturinn var sleginn á hlutabréfamörkuðum í Japan í morgun í kjölfar þess að Shinzo Abe, forsætisráðherra landsins, sagði óvænt af sér. Óvissa gætir um hver muni taka við af honum. Nikkei-vísitalan lækkaði um 0,5 prósent í kjölfar afsagnarinnar.Greinendur telja þó að brotthvarf Abes úr stóli forsætisráðherra geti haft jákvæðar afleiðingar fyrir verðþróun á hlutabréfamörkuðum, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Nokkrar sveiflur hafa verið á evrópskum hlutabréfamörkuðum í dag. Þannig hefur FTSE-vísitalan lækkað um 0,3 prósent og hin þýska Dax-vísitala lækkað um 0,26 prósent. Á móti hefur Cac40-vísitalan í Frakklandi hækkað um 0,21 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×