Viðskipti innlent

Fasteignamarkaðurinn tekur við sér

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu tæpum 5,3 milljörðum króna í apríl, samkvæmt mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Þar af voru ríflega 600 milljónir króna vegna leiguíbúðalána en almenn útlán námu tæpum 4,7 milljörðum króna. Meðallán almennra útlána nam tæpum 9,3 milljónum króna. Sjóðurinn segir að svo virðist sem fasteignamarkaðurinn sé að taka við sér á ný.

Í mánaðarskýrslunni kemur fram að Íbúðalánasjóður hafi lánað tæpa 18,9 milljarða krónur það sem af er árs en það er í efri mörkum útlánaáætlunar sjóðsins.

Sjóðurinn segir í skýrslu sinni sem kom út í dag, að í kjölfar aukinna umsvifa á fasteignamarkaði hafi útlán Íbúðalánasjóðs og útlán banka og sparisjóða verið að aukast. Aukin umsvif hafa haft áhrif á fasteignaverð, sem hafi hækkað á síðustu mánuðum eftir nokkra kyrrstöðu um nokkurra mánaða skeið.

Heildarvelta íbúðabréfa var lítil í apríl eða um 51 milljarður króna og hefur hún ekki verið jafn lág í einum mánuði síðan í júlí í fyrra, að því er segir í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×