Hinn færeyski Eik banki var í morgun frumskráður í kauphallirnar á Íslandi og í Danmörku. Skráningin fór fram í Þórshöfn við hátíðlega athöfn að viðstöddu fjölmenni.
Eik Banki er annar færeyski bankinn sem skráður er í Kauphöll Íslands á árinu, en Föroya Bank var skráður á markað að loknu almennu hlutafjárútboði fyrir rúmum tveimur vikum. Alls eru nú þrjú færeysk félög í kauphöllinni, en olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum reið á vaðið í fyrrasumar.
Viðskipti í Eik banka fóru nokkuð fjörlega af stað í morgun. Útboðsgengi bréfa í félaginu var 575 danskar krónur, en um hádegisbil var verð bréfanna rúmlega 700 krónur. Samkvæmt því er markaðsvirði bankans rúmlega sextíu milljarðar íslenskra króna.