Innlent

Fulltrúi forseta mætti ekki á fund utanríkismálanefndar

Hvorki fulltrúi forsetaembættisins né utanríkisráðuneytisins mætti á fund utanríkismálanefndar í morgun, vegna setu forsetans í þróunarráði Indlands. Halldór Blöndal, formaður nefndarinnar, segir að utanríkisráðherra muni koma á fund nefndarinnar síðar.

Formaður utanríkismálanefndar greindi frá því í síðustu viku að hann vildi fá fulltrúa forsetaembættisins og utanríkisráðuneytisins á fund nefndarinnar til að skýra hvernig stóð á því að forseti Íslands tók sæti í Þróunarsjóði Indlands, sem hann telur forsetann ekki hafa heimild til að gera án samráðs við utanríkisráðherra. Fulltrúar þessara aðila mættu hins vegar ekki á reglulegan fund utanríkismálanefndar í morgun.

Eftir á að hyggja segir Halldór að hann sjái ekki nauðsyn á að kalla forsetaritara fyrir utanríkismálanefnd, þar sem forsetinn vinni á ábyrgð utanríkisráðherra og sé sjálfur óábyrgur af öllum stjórnarathöfnum. En það hefur aldrei gerst í sögu lýðveldisins að forseti Íslands eða fulltrúar hans þurfi að sitja fyrir svörum þingnefndar. Halldór vill hins vegar að utanríkismálaráðherra mæti á fund nefndarinnar. Það sé nauðsynlegt fyrir nefndina að vita með hvaða hætti utanríkisráðherra stendur að utanríkismálastefnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×