Menning

ArtFart hefst í annað sinn

Ásgerður G. Gunnarsdóttir segir aðalmarkmið artFart að skapa vettvang fyrir ungt fólk í sviðslistum.
Ásgerður G. Gunnarsdóttir segir aðalmarkmið artFart að skapa vettvang fyrir ungt fólk í sviðslistum. fréttablaðið/hörður

Sviðslistahátíðin artFart hefst um helgina, með frumsýningu á dansverkinu Moment Seen í Tjarnarbíói. Samband ungra sviðslistamanna stendur að hátíðinni, sem hóf göngu sína í fyrra.



Tilurð artFart er nátengd sumarstarfi Hins hússins. „Í fyrra voru mörg okkar í skapandi sumarstarfi Hins hússins. Við vorum flest að fara að frumsýna verk á svipuðum tíma, og fannst sniðugt að skella þessu saman undir ein regnhlífasamtök, sem eru artFart,“ útskýrði Ásgerður G. Gunnarsdóttir, sem heldur utan um hátíðina í ár ásamt þeim Karli Ágústi Þorbergssyni, Sigurði Arent Jónssyni og Hannesi Óla Ágústsyni. „Okkur langaði að þróa hátíðina áfram og búa til vettvang fyrir ungt fólk í sviðslistum. Um leið virkar hátíðin hvetjandi á fólk,“ sagði Ásgerður.

ArtFart vakti mikla athygli í fyrra, þegar hóparnir sem tóku þátt héldu til í húsi Ó. Jónsson og Kaaber verksmiðjunnar við Sæbraut. Í ár hefur Listaháskóli Íslands styrkt hátíðina og lánað þátttakendum húsnæði til æfinga og sýninga, sem allar fara fram í Smiðjunni, gamla nemendaleikhúsi skólans að Sölvhólsgötu. ArtFart hefur jafnframt hlotið styrki frá Reykjavíkurborg og Minningarsjóði Margrétar Björgólfsdóttur.

Þátttakendur í hátíðinni eru um sjötíu í ár, en sýningar eru fimmtán. Þar má meðal annars geta frumsýningar á leikritinu Heteróhetjur: Með fullri virðingu fyrir Ashley Cole, og uppsetningu á verkinu Bubbi kóngur.

Í ár verður bryddað upp á nýjungum í formi vinnustofu og málfundar. „Erna Ómarsdóttir verður með vinnustofu í byrjun ágúst, og svo aftur í lok mánaðar. Hún er fyrir fólk í sviðslistageiranum, en ekki eingöngu þá sem taka þátt í hátíðinni,“ útskýrði Ásgerður. Þá sér Karl Ágúst Þorbergsson um málfund um tilraunir í listum 12. ágúst næstkomandi.

Danshópurinn Samyrkjar ríður á vaðið á artFart og sýnir verkið Moment Seen, við undirleik stórhljómsveitarinnar Tepokans, í Tjarnarbíói klukkan 20 á morgun og sunnudagskvöld. Hópurinn samanstendur af sex dönsurum frá Íslandi, Finnlandi og Svíþjóð og mun hann sýna verkið í Moderna Dansteatern í Stokkhólmi um verslunarmannahelgina.

Nánari upplýsingar um dagskrá artFart og miðasölu má nálgast á vefsíðunni www.myspace.com/artfarticeland og í síma 8217987.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×