Nýi seðillinn verður 200.000 zimbabweskir dollarar og hann er metinn á um það bil einn bandarískan dollara á svarta markaðnum í landinu og um 13 á opinberu gengi. Hæsti seðillinn var áður 100.000 ZD. Sem stendur verður almenningur að bera á sér gríðarstórar upphæðir til þess eins að geta keypt sér í matinn þann daginn og vonast er til þess að þessar aðgerðir eigi eftir að draga úr því. Aðeins er eitt ár síðan Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, skar þrjú núll aftan af gjaldmiðli landsins. Aðgerðir stjórnvalda taldar auka á verðbólguna

Mugabe segir að aðgerðirnar séu nauðsynlegar til þess að koma reglu á markaði í landinu en hann vill meina að andstæðingar hans séu að reyna að koma honum frá með því að eyðileggja efnahag landsins. Þá neitar hann að hafa gert nokkuð sem gæti hafa komið niður á efnahag landsins og sakar þess í stað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Alþjóðabankann, Bandaríkin og Bretland um að reyna að koma sér frá völdum með því að gera landið gjaldþrota.
Sérfræðingar telja þó að aðgerðir Mugabe, lögbundin lækkun á vörum og frysting á verðum, eigi að lokum eftir að ýta undir skort á vörum og því auka enn á verðbólguna í landinu.