Innlent

Starfsmenn óskráðir

20 af þeim 29 mönnum sem lentu í bílslysinu á Bessastaðafjalli í Fljótsdal á sunnudaginn eru ekki skráðir löglega hér á landi, segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. Gissur segir að ekki hafi verið greidd lögbundin gjöld af launum sumra þeirra á árinu.

Mennirnir unnu hjá verktakafyrirtækinu Arnarfelli við að byggja Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar. Starfsmennirnir voru ráðnir í gegnum undirverktaka: þýska fyrirtækið Hunnebeck Polska, GT-verktaka ehf. og Spöng ehf.

Gissur segir að þetta geti haft áhrif á það hvort almannatryggingakerfið standi undir þeirri þjónustu sem þeir þurfa á að halda eftir slysið. „Nú reynir á að þessir menn njóti þeirra réttinda sem lögformlegt ráðningarsamband felur í sér,“ segir Gissur.

Oddur Friðriksson, yfirtrúnaðarmaður starfsmanna Kárahnjúkavirkjunar, segir að það beri að tilkynna og skrá alla erlenda starfsmenn verktakafyrirtækja til Vinnumálastofnunar frá fyrsta vinnudegi. Það hafi ekki verið gert.

Odd grunaði að starfsmenn undirverktakanna væru ekki löglega skráðir hér á landi og lét Vinnumálastofnun vita af því. Oddur segir að hugsanlega séu um sextíu starfsmenn undirverktakanna ekki skráðir löglega. Gissur segir að mál hinna mannanna verði einnig rannsökuð á næstunni.

Ingibjörg Sigurbergsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Spöng ehf., segir að þeir starfsmenn fyrirtækisins sem lentu í rútuslysinu séu skráðir löglega hér á landi. Þrír af mönnunum fimmtán sem slösuðust í slysinu starfa hjá fyrirtækinu að sögn Ingibjargar.

Trausti Finnbogason, eigandi GT-verktaka, segir að ráðningarsamningum fjögurra manna sem unnu hjá fyrirtækinu og lentu í slysinu hafi ekki verið skilað til Vinnumálastofnunar vegna sumarfría. „Þetta var bara smá seinagangur hjá okkur.“ Trausti segir að ráðningarsamningum mannanna fjögurra við verktakafyrirtæki í Lettlandi, sem þeir eru samningsbundnir, verði skilað til Vinnumálastofnunar á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×