Skoðun

Fordómar prófessorsins

Það er greinilegt að hinn mikli fjöldi fólks sem tók virkan þátt í flokksþingi Frjálslynda flokksins hefur vakið óhug með sjálfskipuðum varðhundum umræðunnar.

Frjálslyndi flokkurinn hefur verið í fararbroddi við að ræða ýmis mál sem brenna á þjóðinni en sjálfskipaðir verðir umræðunnar hafa reynt að þagga hana niður, s.s. umræðu um útlendinga og kvótakerfið.

Í fjölmiðlum hefur verið dregin upp mjög sérstök mynd af þeim nokkur hundruð Íslendingum sem tóku þátt í fundinum og samþykktu vandaða stjórnmálaáætlun flokksþingsins. Látið hefur verið að því liggja að þetta hafi verið samkoma sem hafi daðrað við hatur í garð fólks af erlendum uppruna. Það á ekki við nokkur einustu rök að styðjast og sýnir það að nauðvörn andstæðinga flokksins felst í að sverta samkomuna.

Mikið hefur verið gert úr ringulreið sem skapaðist um skeið þegar stór hópur fólks streymdi til skráningar á þingið skömmu áður en kosning átti að hefjast.

Morgunblaðið hefur gert mikið úr þeirri þvögu sem varð, sem starfsfólk þingsins greiddi farsællega úr þegar á leið. Og kosning fór fram eins og lög gerðu ráð fyrir. Ég vil nota tækifærið og hrósa því fólki sem vann óeigingjarnt starf á þinginu og réði fram úr ástandi sem ekki varð séð fyrir.

Enginn gerði athugasemd við framkvæmd kosningarinnar nema sá frambjóðandi sem fór halloka í sjálfum kosningunum eftir að úrslit lágu fyrir og síðan komu helstu fylgismenn í kjölfarið. Frambjóðandinn sem um ræðir hafði stefnt leynt og ljóst að því að fara úr Frjálslynda flokknum ef hún næði ekki undirtökunum í flokknum.

Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með því hvernig ýmsir reyna að sverta þann fjölda fólks sem tók þátt í lýðræðislegu starfi á vegum Frjálslynda flokksins. Þó tók steininn úr þegar Baldur Þórhallsson, sem starfar sem prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og á að stunda gagnrýnin vinnubrögð, gleypti í fréttatíma RÚV við öllum rangfærslum um framkvæmd kosninganna, miklaði þær og dró síðan í framhaldinu í efa trúverðugleika Frjálslynda flokksins.

Ekki veit ég til þess að prófessorinn hafi haft nokkurt samband við þá valinkunnu heiðursmenn sem sáu um framkvæmd kosninganna til þess að kynna sér málavöxtu.

Ég skora hér með á Baldur Þórhallsson, prófessor í Háskóla Íslands, að setja sig í samband við kjörnefnd Frjálslynda flokksins, setja sig inn málavöxtu og vera ekki að fella dóma sem byggðir eru á litaðri fréttamennsku flokksblaðs Sjálfstæðisflokksins.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×