Viðskipti innlent

LatCharter Airlines leigir Airbusþotu til Möltu

LatCharter Airlines dótturfélag Loftleiða Icelandic hefur gert samning við ríkisflugfélagið Air Malta á Möltu um leigu á einni Airbus A320 þotu frá LatCharter til tveggja ára. Verðmæti samningsins nemur einum milljarði króna.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að þotan, sem áður var í rekstri hjá Air Canada, verður sú þriðja sem bætist við flota LatCharter á þessu ári. Fimm þotur verða þar með í rekstri hjá LatCharter Airlines. LatCharter tekur þoturnar á leigu frá bandaríska flugvélaleigufyrirtækinu KJ Aviation.

Loftleiðir, sem er eitt dótturfélaga Icelandair Group, eignuðust LatCharter Airlines um mitt síðasta ár. Félagið hafði þá tvær Airbus þotur í rekstri en flotinn hefur vaxið um 150 prósent með þessum samningnum nú. Gert er ráð fyrir að floti félagsins vaxi enn frekar á næstunni, að því er segir í tilkynningu frá félaginu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×