Innlent

Iðnaðarráðherra þarf að læknast af stjórnarandstöðusótt

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að iðnaðarráðherra þurfi að læknast af stjórnarandstöðusótt en þá hefur greint á um nokkur mál á hveitibrauðsdögum ríkisstjórnarinnar.

Iðnaðarráðherra hefur gefið í skyn að hann vilji breyta ákvæðum vatnalaga um að landeigendur fái í sína einkaeigu vatn, og jafnvel grunnvatn, á landi sínu.

Forsætisráðherra sagði á Stöð 2 í gær að málið sé á forræði iðnaðarráðherra og ekkert sé óeðlilegt við það að hann fari yfir málið og kanni hvort hann geti náð fram breytingum.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur ekki tekið hugmyndum Össurar um endurskoðun vatnalaganna fagnandi.

Nokkuð hefur borið á ágreiningi milli Sigurður Kára og Össurar í nokkrum málum á hveitibrauðsdögum ríkisstjórnarinnar. Meðal annars hefur Sigurður Kári verið andsnúinn hugmyndum iðnaðarráðherra um byggðastofnun.

Stjórnmálaskýrendur segja sumir að of stutt sé liðið síðan Össur og Sigurður Kári voru í gagnstæðum liðum og Össur hafi oft farið mikinn gegn Sigurði Kára á bloggsvæði sínu.

"Sjálfstæðismaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson virðist búinn að missa síðustu leifarnar af sjálfstæðum vilja. Hann gengur kjarki rúinn undir vönd menntamálaráðherra og virðist sætta sig við að hún tæti opinberlega af honum síðustu spjarir trúverðugleikans."

Skrifar Össur ekki löngu fyrir kosningar.

Sigurður Kári segir að hann hafi svo sem sent Össuri tóninn, en mest í þinginu. Hann segir að það sé hlýtt á milli sín og iðnaðarráherrans en hann hiki ekki við að segja sína skoðun ef hann sé andsnúinn því sem komi fram í máli hans og annarra ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×