Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, segir að sínir menn þurfi að ná sínum besta leik til að eiga möguleika gegn FH-ingum í bikarúrslitaleiknum á morgun.
„Við hlökkum mikið til og ætlum við að enda þetta skemmtilega sumar á þessum ævintýralega leik," sagði Ásmundur við Vísi.
Hann segir að það sé mikill spenningur í sínum mönnum en að sínir leikmenn þurfi að sýna sitt allra besta til að eiga möguleika gegn FH.
„Spennustigið verður mikið í leiknum og verða menn að hrista það af sér sem allra fyrst í byrjun leiksins. Við þurfum að verjast vel og loka á gott lið FH-inga. Ef það gengur vel ættum við að eiga möguleika á því að sækja hratt. Ef við náum að standa í þeim og ná upp hörkuleik er alltaf möguleiki fyrir hendi."
Mikið var rætt um hvort þeir Atli Viðar Björnsson og Heimir Snær Guðmundsson fengu að taka þátt í leiknum en þeir voru í sumar lánaðir til Fjölnismanna frá FH. Á endanum ákvað stjórn knattspyrnudeildar FH að samningar skyldu standa og þeir fengu ekki að spila á móti FH.
„Atli Viðar hefur skorað mikið af mörkum fyrir okkur í sumar en sóknarleikurinn byggist upp á fleirum en einum manni. Sú staða hefði getað komið upp að einn okkar sóknarmanna hefði meiðst fyrir þennan leik. Þá værum við í sömu stöðu og nú. Ég vonast auðvitað til þess að það komi maður í manns stað og við spilum ekki síðri sóknarleik en við höfum gert hingað til."
Bikarmeistararnir fá þátttökurétt í UEFA-bikarkeppninni en Ásmundur segir að hann hugsi ekki um það. „Það er bara eitthvað sem fylgir þessum leik. Aðalatriðið er að menn þjappi sér saman og nái góðum leik."