Innlent

Ofvirkniaukandi E-efnablanda

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Neytendasamtökin hvetja neytendur til að sneiða hjá matvælum sem innihalda blöndu af litarefnum og rotvarnarefni sem nýleg bresk rannsókn bendir til að auki ofvirkni barna.

Breskir vísindamenn komust nýlega að þeirri niðurstöðu að þegar ákveðnum litarefnum, svokölluðum asó-litarefnum, væri blandað saman við rotvarnarefnið sodium benzoate í matvælum þá yki það ofvirkni í þriggja ára börnum og átta til níu ára börnum og var stuðst við mat kennara, foreldra og athyglispróf í tölvu. Rétt um 300 börn á þessum aldri tóku þátt í þessari stærstu rannsókn á áhrifum aukefna á hegðun barna. Krökkunum var gefinn drykkur með blöndu efnanna annars vegar og án þeirra hins vegar.

Nefnd sérfræðinga hjá Matvælaöryggisstofnun Evrópu hefur niðurstöðurnar nú til skoðunar og hyggjast senda frá sér yfirlýsingu um málið eftir áramót. Umhverfisstofnun ætlar að bíða þeirrar niðurstöðu áður en hún aðhefst í málinu.

Dönsku neytendasamtökin hvetja fólk til að finna vörur sem innihalda efnablönduna út í búð og setja síðan á lista - en það ætla Neytendasamtökin ekki að gera heldur bíða frekari upplýsinga frá Evrópusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×