Innlent

MSN-perri dæmdur í skilorðsbundið fangelsi

MYND/E.Ól

Karlmaður á fimmtugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa sært blygðurnarsemi 17 ára pilts með því að klæmast við hann á MSN-spjallrásinni í september og október í fyrra.

Maðurinn var ákærður fyrir bæði kynferðisbrot og brot á barnaverndarlögum enda var drengurinn enn þá barn þegar spallið átti sér stað. Samkvæmt ákæru lýsti maðurinn vilja sínum til að hafa mök við drenginn og með hvaða hætti hann vildi hafa þau.

Það var móðir drengsins sem leitaði til yfirvalda vegna málsins og benti á að drengurinn hefði þekkt ákærða frá unga aldri og verið tengdur honum fjölskylduböndum. Taldi móðirin að maðurinn væri alvarlega veikur og jafnvel væri hætta á að önnur börn gætu orðið fórnarlömb hans.

Maðurinn viðurkenndi fyrir dómi að hafa skrifað það sem fram kom í MSN-spjalli hans við drenginn en útprentun af samskiptunum var lögð fyrir dóminn. Segir í dómnum að ummæli mannsins í umrædd skipti hafi verið í alla staði ófyrirleitin og mjög gróf. Enginn vafi sé á því að þær lýsingar sem maðurin hefði viðhaft í samskiptum sínum við drenginn hefðu sært blygðunarsemi drengsins. Þá hefði maðurinn fengið kynferðislega fullnægju við þessi samskipti. Var maðurinn því sakfelldur fyrir brotin.

Hann hafði ekki komist í kast við lögin áður og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Auk tveggja mánaða skilorðsbundins fangelsis var hann dæmdur til að greiða drengnum 200 þúsund krónur í skaðabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×