Innlent

Harðskeljadekk í stað negldra

Breki Logason skrifar
Nagladekkin eru á miklu undanhaldi.
Nagladekkin eru á miklu undanhaldi.

„Jú það er allt vitlaust að gera sérstaklega þar sem það er spáð kólnandi," segir Elías hjá dekkjaverkstæðinu Nesdekk en miklar biðraðir hafa myndast fyrir utan dekkjarverkstæðin í dag. Elías segir þó að yfirleitt byrji traffíkin ekkert almennilega fyrr en fyrsti snjórinn falli.

„Nagladekkin eru á nokkru undanhaldi og þá sérstaklega núna eftir að við fórum að bjóða upp harðskeljadekk, þau virka mjög vel," segir Elías sem mælir hiklaust með harðskeljunum. Hann segir þau betri en nagladekkin við lang flestar aðstæður. „Það er þá helst á mjög blautu svelli sem naglarnir hafa yfirhöndina. En það gerist eiginlega aldrei innan bæjar."

Einnig er boðið upp á harðkorna- og loftbóludekk en Elías er hrifnastur af harðskeljadekkjunum sem eru á svipuðu verði og naglarnir að sögn Elíasar.

„Nagladekkin eru eitur bæði fyrir göturnar og okkur mannfólkið," segir Elías en nagladekkin hafa verið gagnrýnd mikið síðustu ár.

Reykjavíkurborg er meðal annars í mikilli baráttu þessa dagana gegn nagladekkjunum undir yfirskriftinni Ryklaus Reykjavík.

Nagladekkin spæna upp göturnar auk þess sem þau framleiða svifryk sem fer illa með lungun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×