Enski boltinn

Fyrsta tap Arsenal síðan í apríl

NordicPhotos/GettyImages

Arsenal varð í dag síðasta liðið til að tapa leik í ensku úrvalsdeildinni þegar liðið lá óvænt 2-1 fyrir spræku liði Middlesbrough á Riverside. Arsenal hafði ekki tapað í deildinni síðan í apríl, en Boro vann sinn fyrsta sigur í 10 leikjum í deildinni.

Sigur Boro var í raun verðskuldaður og það var landsliðsmaðurinn Stuart Downing sem kom liðinu á blað í fyrri hálfleik þegar hann skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var á Kolo Toure.

Boro fékk fullt af færum til að bæta við mörkum gegn frekar daufum Arsenal mönnum, en það var loks Tuncay Sanli sem skoraði annað markið og tryggði Boro sigurinn með laglegu marki á 72. mínútu. Tomas Rosicky náði að minnka muninn fyrir Arsenal á lokaaugnablikunum í uppbótartíma og því hefur Arsenal skorað í öllum leikjum sínum til þessa á leiktíðinni.

Arsenal er enn á toppnum með 37 stig en nú munar aðeins einu stigi á liðinu og Manchester United og þau hafa spilað jafnmarga leiki. Chelsea er í þriðja með 34 og Liverpool í fjórða með 30 og leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×