Þrír björgunarmenn létust og í það minnst sex slösuðust þegar þeir reyndu að komast að sex námuverkamönnum sem lokuðust inni í námu fyrir ellefu dögum.
Björgunarlið var að vinna í gegnum brak og grjótmulning til að komast að mönnunum í göngunum í Huntington í Utah í Bandaríkjunum.
Verið var að taka ákvörðun um hvort snúa ætti björgunarliðinu til baka þegar skjálfti upp á 1,6 á Richter reið yfir og brak hrundi yfir mennina. Tveir létust samstundis, en sex slösuðust og voru fluttir á sjúkrahús, þar lést einn þeirra.
Ekki er vitað hvort sexmenningarnir sem lokuðust þar inni fyrir ellefu dögum eru á lífi, en þeir eru fastir rúmlega 450 metra niðri í göngunum.
Ríkisstjóri Utah sagðist vonast til að yfirvöld nýttu sér lærdóm sem draga mætti af slysinu og björgunaraðgerðum.
Fjölskyldumeðlimir námuverkamannanna voru slegnir eftir atburðinn og söfnuðust saman við innganginn í göngin þar sem þeir biðu frétta.
Reynt hefur verið að bora niður til mannanna og ná braki úr göngum sem féllu saman. Embættismenn segja aðstæður í námunni afar ótraustar.
Fjöldi minni skjálfta hefur tafið störf björgunarmanna og grafið björgunartæki í grjót og mulning. Ekki hefur verið ákveðið hvenær björgunarstörf halda áfram, en beðið er eftir staðfestingu um öryggi áður en fleiri lífum verður stofnað í hættu.