Öll lög sem Paul McCartney hefur gefið út á sólóferli sínum og með hljómsveitinni Wings verða fáanleg í stafrænu formi á netinu á næstunni. Ekki hefur þó enn verið ákveðið hvort eða hvenær plötur Bítlanna verði fáanlegar í stafrænni útgáfu.
Formaður útgáfufyrirtækisins EMI, Tony Wadsworth, segir lög McCartneys vera einn mesta fjársjóðinn í sögu popptónlistarinnar. „EMI er stolt af að kynna tónlist Pauls fyrir hinu stafræna markaðssvæði,“ sagði hann.
Á meðal platna McCartneys sem verða endurútgefnar í stafrænu formi verða fyrsta sólóplata hans, McCartney, Band on the Run með Wings og nýjasta sólóplata hans, Chaos and Creation in the Backyard. Næsta plata Bítilsins fyrrverandi, Memory Almost Full, kemur út 4. júní.