Innlent

Leitað eftir hugmyndum að uppbyggingu í Kvosinni

MYND/GVA

Reykjavíkurborg hefur valið sex arkítektastofur til að setja fram tillögur að uppbyggingu í Kvosinni eftir brunann á horni Austurstrætist og Lækjargötu í apríl síðastliðnum. Þá geta aðrir einnig komið hugmyndum sínum að uppbyggingu á framfæri.

Svæðið sem um ræðir afmarkast af Pósthússtræti, suðurhlið Hótel Borgar, Skólastræti, Stjórnarráðinu, suðurhlið Tónlistarhússreitsins og Tryggvagötu.

Eftir því sem segir í tilkynningu frá borginni er markmiðið með hugmyndaleitinni að afla tillagna um hvernig styrkja megi svæðið, t.d. með nýbyggingum, viðbyggingum, götum, torgum og tengingum á milli bygginga og opinna svæða.

Sex arkitektastofur hafa í forvali verið valdar til að setja fram tillögur að uppbyggingunni og fá þær greitt fyrir framlag sitt. Arkitektastofurnar eru Argos, Gullinsnið og Studio Granda, VA arkitektar og Landslag ehf., Henning Larsen architects, Arkitema K/S og ARKþing ehf. arkitektar, KRADS arkitektar og að lokum Gehl architects. Þá geta allir sem hafa góðar hugmyndir að uppbyggingu skilað þeim inn.

Tillögum skal skilað á mest tveimur blöðum/spjöldum í stærðinni A1 - merktum fimm stafa auðkennistölu. Ekki verða veitt eiginleg verðlaun í hugmyndaleitinni heldur munu þær hugmyndir sem dómnefnd velur til áframhaldandi vinnu við gerð deiliskipulags af svæðinu verða keyptar. Að auki munu hugmyndir sem dómnefnd telur þess verðugar verða verðlaunaðar.

Trúnaðarmaður dómnefndar er Þórarinn Þórarinsson, arkitekt FAÍ á Skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkur í Borgartúni 3. Tillögum skal skila til hans eigi síðar en fimmtudaginn 9. ágúst 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×