Enski boltinn

Ben Foster: Ég ætla ekkert að lesa blöðin á morgun

Foster tekur hér glottandi í hönd félaga síns Paul Robinson hjá landsliðinu eftir leik Tottenham og Watford í dag
Foster tekur hér glottandi í hönd félaga síns Paul Robinson hjá landsliðinu eftir leik Tottenham og Watford í dag NordicPhotos/GettyImages

Markvörðurinn Ben Foster hjá Watford sagðist eiga von á erfiðri viku með enska landsliðinu eftir að hann lét félaga sinn og markvörð Tottenham Paul Robinson skora hjá sér í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í dag.

"Ég get ekki útskýrt hvað gerðist. Robbo tók fasta aukaspyrnu sem lenti beint milli mín og varnarmannsins og það varð misskilningur á milli okkar með þeim afleiðingum að ég missti boltann yfir mig. Maður á upp og niður leiki í fótboltanum og við svona löguðu er lítið að gera. Þetta fer bara í reynslubankann," sagði Foster í samtali við breska sjónvarpið í dag og var svo spurður hvernig yrði að mæta á fyrstu æfingu hjá enska landsliðinu eftir klúðrið í dag.

"Ég verð að sýna að ég hafi skapgerð í að hrista svona nokkuð af mér og ég held að ég missi ekki sjálfstraustið þó þetta hafi verið slysalegt mark. Það er hinsvegar víst að ég á langa viku af bröndurum fyrir höndum með landsliðinu. Ég er sem betur fer frekar rólegur náungi og ég reyni að leiða stríðni hjá mér - vonandi tekst mér það í þessu tilviki líka. Ég ætla samt ekkert að vera að lesa blöðin á morgun," sagði Foster, sem þó varði á köflum mjög vel í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×