Innlent

Hjálmar er rauðhærðastur

Rauðhærðasti Íslendingurinn árið 2007 var valinn á Írskum dögum á Akranesi í dag. Hann segist stolur af háralitnum og aldrei hafa óskað sér að vera ekki rauðhærður.

Það var Hjálmar Ingibergsson sem hlaut heiðurinn að þessu sinni en þetta er í áttunda skipti sem keppni um rauðhærðasta Íslendinginn er haldin. Þetta var hins vegar í annað sinn sem Hjálmar tók þátt í keppninni og átti hann ekki von á því að vinna. Sérstök verðlaun fyrir heildarútlit hlaut hinn átta ára gamli Friðfinnur Sigurðsson. Þeir Hjálmar og Friðfinnur segjast aldrei hafa óskað sér að hafa annan háralit.

Í verðlaun hlaut Hjálmar ferð til borgar rauðhærða fólksins, Dublin á Írlandi.

Írsku dagarnir á Akranesi hófust á fimmtudag. Dagskráin hefur verið æði fjölbreytt. Boðið hefur verið upp á leiktæki, tívolí, götugrill, víkingastemningu, siglinga- og dorgveiðikeppni auk sandkastalakeppni svo eitthvað sé nefnt. Og í kvöld verður hið árlega geysivinsæla lopapeysuball í bænum. Írsku dögunum lýkur svo á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×