Innlent

Ísland miðstöð um þróun hreinnar orku

Ísland getur orðið miðstöð alþjóðlegs samstarfs um þróun hreinnar orku að mati Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Í nýársávarpi sínu í dag sagði forsetinn að hann ætlaði að beita sér fyrir stofnun slíkrar miðstöðvar.

Forseti sagði í ávarpi sínu að liðins árs yrði án efa lengi minnst fyrir þáttaskil í umræðunni um loftslagsbreytingar. Hækkun sjávarborðsins hafi orðið brennandi viðfangsefni og spár um að á örfáum áratugum kynnu loftslag jarðar og lífsskilyrði að umturnast til verri vegar.

Forsetinn sagði athafnamenn, hugsuði í alþjóðamálum og frumherja í vísindastarfi hafa sannfært sig um að hægt sé að gera Ísland að miðstöð alþjóðlegs samstarfs um þróun hreinnar orku og umræðu um loftslagsbreytingar. Ísland hafi marga kosti til að bera sem geri það kjörið til að takast þetta verkefni á hendur.

Forsetinn sagðist hafa ákveðið að beita kröfum mínum og nýta tengsl við áhrifafólk víða um lönd til að hrinda í framkvæmd þeirri hugsjón að Ísland verði miðstöð alþjóðlegs samstarfs og samræðna um hreinan orkubúskap jarðarbúa, miðstöð þekkingar og starfs sem forði komandi kynslóðum frá ógninni sem felist í breytingum á loftslaginu og búi um leið traustan grunn að sjálfbærri framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×