Viðskipti innlent

ICEX-15 hækkaði um 15,8 prósent í fyrra

Kauphöll Íslands.
Kauphöll Íslands.

ICEX-15 hlutabréfavísitala Kauphallar Íslands hækkaði um 15,8 prósent á síðasta ári. Til samanburðar nam árleg hækkun vísitölunnar 56-65 prósentum á árunum 2003-2005, að sögn greiningardeildar Glitnis, sem spáði 15-25 prósenta hækkun á síðasta ári.

Í Morgunkorni greiningardeildar Glitnis kemur fram að deildin ítrekaði spá sína í byrjun fjórða ársfjórðungs. Hækkun vísitölunnar á þeim ársfjórðungi nam 2 prósentum og var búist við að hækkunin myndi nema um 6 prósentum á fjórðungnum.

Greiningardeild Glitnis segir einkum fjóra þætti hafa haldið aftur af hækkunum á fjórða ársfjórðungi. Þótt uppgjör fyrirtækja á þriðja ársfjórðungi hafi verið ágæt á heildina litið voru þau engu að síður lítillega undir væntingum auk þess sem skammtímavextir hækkuðu enn frekar á fjórðungnum. Þá var útboðsgengi á nýju hlutafé í Kaupþingi til erlendra fjárfesta óvenju lágt að mati greiningadeildar Glitnis og hliðraði það markaðnum niðurávið. Að síðustu kom lækkun lánshæfiseinkunnar íslenska ríkisins af hálfu matsfyrirtækisins Standard & Poor's flatt upp á fjárfesta og olli lækkun vísitölunnar sem leidd var af lækkun á bréfum bankanna, að sögn Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×