Erlent

Flugvélar enn leitað

Enn er allt á huldu með örlög rúmlega eitt hundrað farþega sem voru um borð í indónesískri flugvél sem hvarf að morgni nýársdags. Vélin var á leið frá Jövu til Súlavesí-eyja. Ranglega var sagt frá því í gær að flugvélin og 12 eftirlifendur hefðu fundist í gærmorgun og vakti það fyrst von hjá ástvinum þeirra sem er saknað en hún snerist síðan upp í reiði.

Upplýst var í morgun að tvö neyðarköll hefðu borist frá vélinni áður en samband við hana rofnaði. Greint var frá því í morgun að flak vélarinna og minnst 12 eftirlifandi hefðu fundið í skóglendi á Súlavesí-eyju en það reyndist rangt, byggt á sögusögnum. Vonir ástvina kviknuðu því snemma í gær en vonarneistinn slokknaði skömmu síðar. Atburðir gærdagsins hafa vakið mikla reiði meðal ættingja sem segja ekki nóg að gert til að finna vélina og þá sem um borð voru.

Flaksins er nú leitað undan strönd Súlavesí og til þess notuð þrjú indónesísk herskip og fimm herþotur. Í gær var einvörðungu leitað á eyjunni og þeirri leit haldið áfram í dag.

Vélin er af gerðinni Boeing 737-400 og í eigu indónesíska lággjaldaflugfélagsins Adam Air. Öryggismál hjá fjölmögrum nýstofnuðum indónesískum félögum af þeirri gerð hefur verið töluvert ábótavant að sögn yfirvalda. Indónesískir miðlar segja þó að allt hafi virst í lagi hjá Adam Air.

Tveimur dögum áður en flugvélin hvarf sökk ferja með um 600 manns innanborðs undan strönd Jövu. 212 hefur verið bjargað. Eftir því sem frá slysinu líður minnnka líkur á því að fleiri finnist á lífi. Leit er þó haldið áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×