Viðskipti innlent

Fyrstu jöklabréf ársins gefin út í dag

ABN Amro, einn stærsti banki Hollands, gaf út svokölluð jöklabréf fyrir þrjá milljarða krónur í dag. Bréfið er með gjalddaga 11. janúar á næsta ári og ber 14 prósenta vexti. Þetta er fyrsta jöklabréfið á árinu og það fyrsta síðan í byrjun desember, að sögn greiningardeildar Landsbankans. Jöklabréf fyrir 35 milljarða krónur verða á gjalddaga á fyrsta fjórðungi þessa árs, þar af eru 5 milljarðar á gjalddaga á morgun.

Greiningardeildin segir í Vegvísi sínum í dag að útgáfur jöklabréfa hafi farið af stað með miklum krafti haustið 2005 auk þess sem kippur hafi komið í útgáfu þeirra um áramótin 2005-2006. Deildin segir ennfremur nokkra óvissu hafa ríkt um það hvernig markaðurinn brygðist við fyrstu gjalddögum bréfanna síðasta haust. Þeir liðu hins vegar án stóráfalla.

Í Vegvísinum segir að tveir mánuðir séu liðnir frá því að jöklabréf var síðast á gjalddaga en alls verða um 35 milljarða króna á gjalddaga á fyrsta fjórðungi þessa árs, þar af 5 milljarðar króna á morgun. Útistandandi upphæð útgefinna bréfa, án áfallinna vaxta, er í dag rúmlega 275 milljarðar króna, að sögn Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×