Innlent

Fjórföld hækkun á yfirflugsgjaldi fyrirhuguð

Gjöld Flugstoða vegna flugs á íslensku flugstjórnarsvæði gætu hækkað ef gjald vegna fjarskiptaþjónustu verður fjórfaldað, en ákvörðun um það verður tekin fljótlega. Flugumferðarstjórn er hins vegar komin í eðlilegt horf á ný eftir óvissutíma síðustu daga og vikur.

Í lok dagsins í gær höfðu allir flugumferðarstjórarnir 58 sem ekki höfðu ráðið sig til Flugstoða í byrjun árs, skrifað undir starfssamning við hið nýja opinbera hlutafélag. Fyrir voru 30 flugumferðarstjórar starfandi hjá Flugstoðum. Flugumferðarstjórn er því komin í eðlilegt horf á ný.

Nú er hins vegar beðið ákvörðunar um hækkun gjalda á fjarskiptaþjónustu Flugstoða, en sú ákvörðun er tekin af alþjóðlegu flugmálastofnuninni. Um er að ræða fjórfalda hækkun á gjöldum vegna yfirflugs og segir Þorgeir Pálsson forstjóri Flugstoða að íslensk flugfélög borgi þetta gjald eins og öll önnur félög sem fljúga yfir landið. Gjaldið sem nú er 80 dollarar verður um þrjú hundruð og tuttugu dollarar, en hækkunin tekur ekki gildi fyrr en árið 2009. Ástæða hækkunarinnar er sú að hingað til hafa flug sem fljúga allt að 16 breiddargráðum sunnan við íslenska flugstjórnarsvæðið, greitt flugstjórnargjald þrátt fyrir að fara ekki inn á íslenska svæðið. Um er að ræða 75% af flugumferð yfir norður atlantshafið og munu upphæðin dreyfast á hin 25 prósent fluganna sem fljúga yfir íslenska svæðið nýta sér flugstjórnarþjónustu hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×