Viðskipti innlent

Glitnir segir líkur á lægra bensínverði

Bensíndælur.
Bensíndælur.

Verð á Brentolíu fór í 55 dali á tunnu við opnun markaða í morgun. Olíuverð lækkað nokkuð stöðugt undir lok síðasta árs og er komið talsvert frá þeim methæðum sem það fór í um mitt sumar í fyrra. Greiningardeild Glitnis segir íslensku olíufyrirtækin ekki hafa lækkað eldsneytisverð síðan 22. nóvember í fyrra en telur líkur á lækkun á næstunni.

Greiningardeild Glitnis segir í Morgunkorni sínu í dag að lækkun á olíuverði síðustu vikurnar megi aðallega rekja til hlýinda á austurströnd Bandaríkjanna. Fjórði ársfjórðungur sé alla jafna sá söluhæsti á árinu en líklegast megi ennþá eiga von á kuldakasti í Bandaríkjunum. Þá hafi olíubirgðir aukist þrátt fyrir að OPEC-ríkin, samtök olíu útflutningsríkja, hafi ákveðið að draga úr olíuframleiðslu um 1,2 milljónir tunna á dag frá 1. nóvember síðastliðnum. Greiningardeildin bendir á að OPEC-ríkin framleiði samtals um 40 prósent af olíu í heiminum en þau hafi minnkað framleiðslu sína síðastliðna 2 mánuði eða um 245 þúsund tunnur á dag í desember og 550 þúsund tunnur á dag í nóvember. Framleiðslan verður minnkuð enn frekar þann 1.febrúar til að koma í veg fyrir of miklar birgðir eftir veturinn. Búist er við að olíuverð muni halda áfram að lækka á næstunni, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Greiningardeildin bendir á að íslensku olíufélögin hafi ekki lækkað bensínverð síðan 22. nóvember í fyrra. Síðan þá hefur Brent hráolían lækkað um 7 prósent í verði og gengi krónunnar hækkað um 1 prósent á sama tíma. Íslenskir neytendur megi því eiga von á lækkun bensínverðs á næstunni. Muni það ásamt fleiri þáttum vinna með lækkun vísitölu neysluverðs og verðbólgunnar, að sögn deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×